Undirbúningur fyrir myndatöku

Það fyrsta sem þarf að ákveða er hvaða rými skal mynda. Mikilvægustu rýmin eru stofa, eldhús, baðherbergi og hjónaherbergi.
Með því að fylgja þessum leiðbeiningum næst bestur árangur úr myndatökunni og eignin er kynnt fyrir markaðnum í sínu besta ljósi.

Ef tími gefst ekki til að undirbúa myndatökun að fullu eru mikilvægustu atriðin eru feitletruð í listanum hér að neðan.

Utandyra

 • Taktu til í garðinum og innkeyrslu/aðkomu. Fjarlægðu óþarfa hluti eins og leikföng, hjól og garðverkfæri. Rúllaðu upp slöngum og raðaðu garðhúsgögnum.
 • Taktu lokið af heita pottinum og passaðu að hann sé hreinn. Ef lokið er færanlegt komdu því þá fyrir þar sem það mun ekki sjást.
 • Klipptu runna og sláðu garðinn að sumri til. Ef snjór er til skaltu moka aðkomu hússins.
 • Þegar ljósmyndarinn kemur færðu þá bíla úr innkeyrslunni þannig að húsið sjáist óhindrað.

Innandyra

 • Fjarlægðu alla óþarfa hluti af gólfum, t.d gæludýrarúm/búr, vatnsskálar, leikföng og annað slíkt.
 • Skoðaðu lýsingu rýmisins. Dragðu frá gardínur og reyndu að hleypa eins mikilli náttúrulegri birtu og mögulegt er. Einnig skaltu skipta um allar sprungnar perur.
 • Hafðu slökkt á sjónvarpinu og loftviftum.
 • Reyndu að fela rafmagnssnúrur sem liggja í tæki eða lampa.
 • Þarf að gera við eitthvað? Lagaðu málningu þar sem þarf, settu gólflista þar sem þá vantar og annað smálegt.

Eldhús

 • Fjarlægðu allt af ísskápshurð, eins og segla og minnisblöð.
 • Fjarlægðu smáhluti af eldhúsbekkjum. Ágætt er að hafa eitthvað þó t.d hrærivélina, kaffivél og fleira í þeim dúr.
 • Fjarlægðu uppþvottaefni, uppþvottabursta, þurrkgrindur og viskustykki.
 • Fjarlægðu eldhúsrúllur.

Baðherbergi

 • Fjarlægðu allar vörur s.s sjampóbrúsa, tannbursta, raksköfur, hárblásara af skápum, baði og sturtu.
 • Þrífðu spegla.
 • Fjarlægðu handklæði af handklæðaofnum og einnig baðmottur.
 • Fjarlægðu salernisbursta og ruslatunnu og settu nýja rúllu af salernispappír.
 • Hafðu salernissetu lokaða.

Svefnherbergi

 • Hafðu rúm uppábúin og lokaðu öllum skápum.
 • Hafðu kveikt á lömpum.

 

Attachments:
Download this file (Undirbuningur.pdf)Undirbuningur.pdf[Hér má nálgast prentvæna útgáfu]156 Kb1048 Downloads